19/04/2024

Assassin 62

Kvikmyndagerðarmenn á LaugarhóliUndanfarna daga hefur kvikmyndalið frá Bandaríkjunum dvalist á Ströndum við upptöku á nýrri kvikmynd. Leikstjóri og framleiðandi myndarinnar heitir Sean Harris en hann hefur komið nokkrum sinnum áður í heimsókn á Strandir og heillaðist svo af umhverfinu að hann ákvað að taka upp hluta næstu kvikmyndar sinnar á svæðinu.

Kvikmyndin heitir Assassin 62 sem gæti útlagst á íslensku Launmorðingi 62, og eftir því sem tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is kemst næst þá fjallar kvikmyndin um tálkvendi og náttúruverndarsinna sem eltist við veiðiþjófa og seljendur nashyrningadufts sem nýtt er til kynörvunar og myrðir þá. Atriði í myndinni, sem er erótísk spennumynd, eru tekin í gömlu síldarverksmiðjunni í Djúpavík og í heita pottinum á Laugarhóli í Bjarnarfirði.

Aðalleikona myndarinnar heitir Martina Jacova en hún er slóvakísk leikkona búsett í Bandaríkjunum. Hún er einnig kunn ljósmyndafyrirsæta, en ljósmyndir af henni hafa birst í mörgum helstu tímaritum heims.

Sean Harris hefur gert nokkrar myndir áður en þær hafa ekki verið sýndar hér á landi svo vitað sé.

Vonandi gefst tækifæri á að berja þessa kvikmynd augum hér á landi þegar hún verður tilbúin. Það verður gaman að sjá hvernig síldarverksmiðjan í Djúpavík tekur sig út í hlutverki nashyrningaduftssmyglsbælis, sem er alveg nýtt sjónarhorn á nýtingu verksmiðjunnar.

Kvikmyndagerðamennirnir dvöldu á Hótel Laugarhóli meðan á tökum myndarinnar stóð á Ströndum. Ljósmyndin hér að neðan er af Matthíasi Jóhannssyni hótelstjóra á Laugarhóli ásamt einum kvikmyndagerðarmanninum og aðalleikkonunni þegar þau kvöddu sveitina í morgun.

.

Kvikmyndagerðamaðurinn Sandra t.v. og leikkonan Martina t.h. þakka Matthíasi velgjörðirnar.

Tengdar fréttir:
Mick Jagger hvað?