22/12/2024

Áskorun um bætt kjör kennara

GrunnskólinnAllir kennarar Grunnskólans á Hólmavík hafa skrifað undir áskorun til Launanefndar sveitafélaga, Strandabyggðar og samninganefndar Félags grunnskólakennara þar sem farið er fram á að laun grunnskólakennara verði leiðrétt, með vísan til greinar 16.1. í gildandi kjarasamningi. Krefjast þeir þess að komið verði til móts við kennara með raunsæjum og ábyrgum aðgerðum.

Í grein 16.1. í gildandi kjarasamningi segir: 

"Samningur þessi gildir til 31. desember 2007 en er uppsegjanlegur miðað við þá dagsetningu með þriggja mánaða fyrirvara. Sé samningnum ekki sagt upp framlengist hann til 31. maí 2008 og fellur þá úr gildi án uppsagnar en launatafla hækkar hinn 1.  janúar 2008 um 2,25%. Aðilar skulu taka upp viðræður fyrir 1. september 2006 og meta hvort breytingar á skólakerfinu eða almenn efnahags- og kjaraþróun gefi tilefni til viðbragða og ákveða þær ráðstafanir sem þeir verða sammála um."

Í áskorun kennaranna á Hólmavík segir ennfremur:
 
"Rík ástæða er til að bregðast við því sem gerst hefur í almennri efnahags- og kjaraþróun í landinu. Krafist er að kjörin verði bætt með hliðsjón af almennri launaþróun á launum félagsmanna ASÍ, leikskólakennara, þroskaþjálfa, bankamanna og æðstu ráðamanna þjóðarinnar. Þykir okkur full ástæða til að laun okkar verði leiðrétt í samræmi við aðra.
 
Í ljósi þessa gerum við þá afdráttarlausu kröfu til viðsemjenda okkar að þeir standi við það ákvæði í kjarasamningnum sem til er vísað og komi nú þegar til móts við kennara með raunsæjum og ábyrgum aðgerðum.
 
Mikil óánægja með launakjörin og sú staðreynd að grunnskólakennarar hafa dregist svo aftur úr öðrum stéttum hvað varðar almenn kjör, skapa þá hættu að fólk hverfi frá störfum. Það er óásættanleg staða með tilliti til skólastarfs og skólaþróunar í landinu."