22/11/2024

Árshátíð í Borðeyrarskóla

Árshátíð Grunnskólans á Borðeyri var haldin síðastliðið föstudagskvöld. Fjölmenni mætti og var gaman að sjá hvað börnin og starfsfólk skólans hafa vandað til hátíðarinnar. Kristín Árnadóttir skólastjóri setti hátíðina, þar kom m. a. fram að þau börn sem  eru í fjórða bekk og nýlega luku samræmdum prófum í íslensku og stærðfræði við skólann, stóðu sig afburða vel en einkunnir þeirra voru langt yfir meðaltali á landsvísu, en meðaltalið hjá þeim var 9,0 í stærðfræði og 8,7 í íslensku.

Að setningu lokinni hófst hátíðin. Þar voru tekin fyrir hin ýmsu atriði á leiksviðinu, mest frumsamið efni sem oftar en ekki tengdist skólalífinu og eða daglegu lífi í sveitinni. Mörg ágætis tónlistaratriði voru einnig flutt, en tónlistarkennslan er í höndum Pálínu Skúladóttur.

Öll börnin bæði í Grunnskóla Borðeyrar og dagvistun tóku virkan þátt í hátíðinni og var þetta skemmtun hin mesta. Skólablaðið Borðeyringur var til sölu á hátíðinni en útgáfa þess var endurvakið nú í vetur eftir nokkura ára hlé. Blaðið er vandað að allri gerð svo sómi er að.

Umfang árshátíðarinar og útgáfa skólablaðsins hvíldi að stórum hluta á herðum þeirra Jónu Guðrúnar Ármannsdóttur og Maríu Kristínar Sævarsdóttur, sem eru kennaranemar við skólann.

Að skemmtun lokinni var boðið til veislu sem foreldrar barnanna sáu um.

Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is í Hrútafirði, Sveinn Karlsson, var að sjálfsögðu á staðnum og smellti þessum myndum af samkomunni.