22/12/2024

Árshátíð Grunnskólans á Hólmavík í dag

Lilli klifurmúsÍ dag fer fram árleg Árshátíð Grunnskólans á Hólmavík og verður að vanda mikið um dýrðir. Fjörið byrjar kl. 18:30 með sýningu á leikritum, söng og gjörningum á stóra sviðinu í Félagsheimilinu á Hólmavík og eru allir hjartanlega velkomnir. Yngri bekkirnir sýna þar margir frumsamið efni og hefur að venju mikil vinna verið lögð í undirbúninginn. Elstu bekkirnir þrír munu sýna atriði úr Dýrunum í Hálsaskógi sem frumsýnd verða á föstudaginn kemur. Eftir árshátíðina tekur við skólaball í Félagsheimilinu og út af öllum þessum skemmtilegheitum verður frí í fyrstu tveimur tímunum á morgun. 

Grunnskólinn á Hólmavík hefur lengi haft þá stefnu að sérstök áhersla er lögð á listir í starfi skólans umfram það sem venjulegt er í grunnskólum – leiklist og tjáningu, söng og tónlist. Ætlunin með því er að gera nemendur hæfari í félagsstarfi og félagslegum samskiptum. Um leið er hugsunin sú að þessi stefna verði til þess að nemendur skólans verða óhræddari við koma fram og tjá sig opinberlega og jafnframt styrkir þessi stefna skólans nemendur í að vera þeir sjálfir, taka sjálfstæðar ákvarðanir og verja skoðanir sínar.