27/04/2024

Birkir fyrstur í Strandagöngunni

Birkir með SigfúsarbikarinnStrandagangan var haldin á sunnudaginn á Hólmavík. Í 1 km, 5 km og 10 km var genginn hringur í nágrenni Hólmavíkur og var bæði start og mark við Íþróttamiðstöðina á Hólmavík.  Í 20 km var gengið frá Víðivöllum í Staðardal til Hólmavíkur og endað við Íþróttamiðstöðina. Fyrstur í mark í 20 km var Birkir Þór Stefánsson og hlaut hann því Sigfúsarbikarinn til varðveislu næsta árið. Birkir er jafnframt fyrstur Strandamanna í 14 ára sögu Strandagöngunnar til að koma fyrstur í mark í 20 km vegalengdinni.

Gangan var æsispennandi, en eftir startið tók Birkir strax forustuna og lét hana aldrei af hendi. Andri Steindórsson og Magnús Eiríksson fylgdu honum fast eftir í upphafi en fyrir innan Hrófberg rykkti Birkir og náði 30-40 metra forskoti á Andra og Magnús sem hann síðan jók við þar til á seinni hluta göngunnar að Andri náði að draga aðeins á hann. Birkir kom svo í mark 19 sekúndum á undan Andra og Magnús var þriðji í markið.

Veðrið setti svip sinn á gönguna en norðanstrekkningur var meðan á henni stóð og skafrenningur á köflum og var færið eftir því erfitt.  Þetta kom stjórnendum göngunnar talsvert á óvart því lengi vel var spáin fyrir daginn þokkaleg. Um kl. 10 í morgun fór göngustjórinn Már Ólafsson áhyggjufullur í tölvuna og skoðaði veðursíður og fann það út að á Hólamavík væri mesti vindur á Íslandi þá stundina eða 13 m/s t.d. voru ekki nema 4 m/s á Steingrímsfjarðarheiði og 2 m/s á Reykjum. 

Þátttakendur í göngunni voru 43 og fær gangan því þann vafasama heiður að vera fámennasta Strandagangan frá upphafi ásamt göngunum 1998 og 2006. 

Fréttin er fengin á heimasíðu Skíðafélags Strandamanna sfstranda.blogcentral.is/, þar má fá frekari upplýsingar og nálgast úrslit. Myndir tók Ingimundur Pálsson og fleiri myndir má finna á vefsíðu hans www.123.is/mundipals.

Birkir með Sigfúsarbikarinn

ithrottir/580-birkir-strandagangan-ip.jpg

Birkir með Sigfúsarbikarinn – ljósm. Ingimundur Pálsson