02/11/2024

Ályktanir Héraðsnefndar

Héraðsnefnd fundar í SævangiHéraðsnefnd Strandasýslu hefur sent frá sér þrjár ályktanir af aðalfundi nefndarinnar sem haldinn var síðasta laugardag. Snúast þær um samgöngumál eins og nærri má geta og einnig er ályktað um óvönduð vinnubrögð Safnaráðs við úthlutanir styrkja til safna í landinu nú í vor. Loks fær vefurinn strandir.saudfjarsetur.is þakkir og hrós frá Héraðsnefnd. Hér á eftir fara ályktanir Héraðsnefndar sem allar voru samþykktar samhljóða:

„Aðalfundur Héraðsnefndar Strandasýslu haldinn að Sævangi 2. apríl 2005 tekur heilshugar undir ályktun Ferðamálafélag Strandasýslu um samgöngumál og hvetur Samgönguráðherra og þingmenn kjördæmisins til að beita sér af hörku fyrir bættum samgöngum til Stranda og um svæðið. Fundurinn bendir á að samgöngur á Ströndum eru úr öllum takti við það sem gengur og gerist á landsvísu. Benda má á að ein mikilvægasta forsenda fyrir sameiningu sveitarfélaga eru bættar samgöngur. Jafnframt telur fundurinn að brýn þörf sé á að vinna að bættum almenningssamgöngum um svæðið allan ársins hring.”

„Aðalfundur Héraðsnefndar Strandasýslu haldinn að Sævangi 2. apríl 2005 mótmælir harðlega  vinnubrögðum safnaráðs við úthlutun styrkja. Það er ámælisvert og varla í samræmi við góða stjórnsýslu að ákveða breytingar á úthlutunarreglum framlaga löngu eftir að umsækjendur hafa skilað inn umsóknum sínum. Héraðsnefndin krefst þess að safnaráð endurúthluti styrkjum í samræmi við fyrri starfsreglur.”
 
„Aðalfundur Héraðsnefndar Strandasýslu haldinn að Sævangi 2. apríl 2005 þakkar stofnendum samskiptavefsins strandir.saudfjarsetur.is fyrir frumkvöðlastarf við að auka upplýsingaflæði í héraði og styrkja tengsl Strandamanna heima og að heiman."