30/10/2024

Afríkudagar á Hólmavík

Nú eru krakkarnir í Grunnskólanum á Hólmavík komin í páskafrí, en í gær héldu 6. og 7. bekkur heilmikla sýningu fyrir foreldra sína og aðra nemendur skólans. Þar var sýndur afrakstur af vinnu nemendanna með Afríkuþemað sem þeir hafa unnið með síðustu tvær vikur undir stjórn kennaranemanna Aðalbjargar Óskarsdóttur og Viktoríu Ránar Ólafsdóttur. Margt fróðlegt kom fram, gestir fengu að smakka á bananarétti frá Sambíu, lærðu undirstöðuatriðin í tungumálinu swahili og fræddust um dýr og fólk í Afríku. M.a. lágu frammi afrískar grímur sem nemendurnir höfðu gert í smíði og orðabækur á íslensku-swahili.

Meðal þess sem fram kom var að hættulegasta dýrið í Afríku er moskítóflugan, en af ferfætlingum er það flóðhestur sem verður flestu mannfólki að aldurtila. Nemendurnir hafa skrifast á við börn í Sambíu í tölvupósti vegna verkefnisins.

Fjörið hélt svo áfram í gærkveldi hjá nemendum í 5.-7. bekk í Grunnskólanum á Hólmavík, en þau héldu náttfatapartý og gistu í skólanum.

Kynningin hjá krökkunum í skólanum á Hólmavík