16/06/2024

Drangsnes aftur í netsamband

Nú komast allir á netið ...Örbylgjusamband Snerpu á Drangsnesi komst í lag í morgun kl. 9:40, en netsamband hafði ekki verið fyrir hendi frá því í gær. Um leið komust sveitabæir við sunnanverðan Steingrímsfjörð í samband en þeir tengjast flestir loftnetinu á Drangsnesi.

Í fréttatilkynningu frá Snerpu sem send var á vefinn strandir.saudfjarsetur.is segir:

Í veðrinu í gærmorgun brotnaði festing á loftneti á endurvarpa á Drangsnesi og hafði þetta verulegar truflanir í för með sér fyrir Drangsnesinga. Á sama tíma var sambandslaust á milli Snerpu og Hólmavíkur og þegar samband komst á aftur við Hólmavík kl. 11:20 í gærmorgun kom í ljós að samband við Drangsnes var mjög slitrótt. Vegna veðurs var ekki hægt að laga bilunina fyrr en í morgun en fullt samband er nú komið á aftur.

Snerpa vill af þessu tilefni benda þeim sem missa út sítengingu á að þeir geta einnig tengst Snerpu um mótald eða ISDN-tengingu. Þá er notað símanúmerið 456-5371 og lykilorð er það sama og notað er í pósthólfið.