Æskulýðsvettvangurinn heimsækir Strandir næsta fimmtudag, þann 22. nóvember, með fyrirlestur um einelti, forvarnir og úrvinnslu eineltismála. Fyrirlesturinn fer fram kl. 16:30-18:00 í Félagsheimilinu á Hólmavík. Það er Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur sem flytur fyrirlesturinn, en hann er byggður á nýútkominni bók hennar Ekki meir, sem er leiðarvísir í aðgerðum gegn einelti fyrir starfsfólk skóla, íþrótta- og æskulýðsfélög, foreldra og börn. Allir eru velkomnir á fyrirlesturinn – léttar kaffiveitingar verða í boði.
Æskulýðsvettvangurinn er samstarfsvettvangur Ungmennafélags Íslands, KFUM og KFUK á Íslandi, Bandalags íslenskra skáta og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Tilgangurinn með fyrirlestrinum er að vekja athygli á þessum málaflokki, opna betur augu starfsfólks og sjálfboðaliða fyrir því að vera vakandi og ávallt á verði gagnvart einelti og annarri óæskilegri hegðun. Á fyrirlestrinum verður aðgerðaáætlun Æskulýðsvettvangsins gegn einelti og annarri óæskilegri hegðun dreift sem og eineltis plakati og nýútkomnum siðareglum Æskulýðsvettvangsins.