11/09/2024

Aðventuhátíð og kaffihlaðborð

Aðventuhátíð Kórs Átthagafélags Standamanna verður haldin sunnudaginn 10. desember í Bústaðakirkju og hefst kl. 16:30. Þar stjórnar Krisztina Szklenár söng kórsins auk þess sem barnakórinn syngur nokkur lög undir stjórn Jensínu Waage. Einsöngvari með kórnum er Magnús Guðmundsson og Judith Þorbergsson annast undirleik. Hugvekju flytur Gunnsteinn Gíslason á Bergistanga í Norðurfirði.

Vert er að minna á hið veglega kaffihlaðborð kórsins að loknum tónleikum en það er innifalið í miðaverði sem er kr. 2.000.- fyrir fullorðna. Mörgum Strandamönnum þykir aðventuhátíð Kórs Átthagafélagsins ómissandi þáttur í undirbúningi jólanna og fullvíst má telja að margt verður um manninn.

Annar geisladiskur kórsins sem ber nafnið Ymur Íslands lag kom út síðastliðið vor og hefur fengið afbragðsgóða dóma. Á disknum syngur kórinn með ýmsum einsöngvurum og hljóðfæraleikurum. Diskurinn er til sölu hjá kórfélögum og er örugglega heppilegur í hina og þessa jólapakka.