05/10/2024

ADSL komið í hús á Hólmavík

Línumaður frá Símanum á Hvammstanga hefur verið á Hólmavík í allan dag að tengja notendur ADSL þjónustunnar við kerfið og nú undir kvöld voru allir sem höfðu pantað þjónustuna komnir með hana í hús. Unnið hefur verið við uppsetningu ADSL á Hólmavík í vetur en u.þ.b. ár er síðan undirskriftarlisti var lagður fram til Símans sem á og rekur kerfið. Önnur fyrirtæki með Internetþjónustu geta síðan keypt sig inn á kerfið og þjónað viðskiptavinum sínum. Eftir að ADSL tengingin er komin á, styttist í að þeir notendur sem hafa áhuga geti fengið inn ýmsar sjónvarpsdagskrár, en biðtími eftir þeirri vöru er u.þ.b. 4-5 vikur um land allt eftir að gengið hefur verið frá pöntun.

Til að nýta sér sjónvarpsmóttöku þarf sjónvarpsafruglara frá sjónvarpsþjónustu Símans en hann fæst þar lánaður gegn því að viðskiptamenn skuldbindi sig að taka ADSL-tenginu (ADSL són) í a.m.k. eitt ár. Eins og er þá boðið upp á tvenns konar áskriftir sem samanstanda af eftirfarandi dagskrám:

Topp pakkinn:

Skjár einn
DR1
Discovery Channel
Star
Cartoon Network
Sjónvarpið
BBC Prime
Sky News
Eurosport
Disney Channel

Áskriftin að Topp pakkanum er greidd sérstaklega á sjónvarpsreiknini og kostar 1.695 kr. á mánuði.

Enski boltinn:

Einnig er hægta að fá fimm rásir af enska boltanum og sú þjónusta kostar mismikið eftir áskriftarformi en algengt verð er 1.990 kr, ef gerður er bindisamningur um þjónustuna.

Nánari upplýsingar um sjónvarpsþjónustuna er að finna á www.skjarinn.is en hægt er að panta þjónustuna þar eða hjá þjónustumiðstöð Símans eftir að pöntun á ADSL línu hefur verið lögð inn.