22/11/2024

Á söguslóðum í Borgarfirði

Á fimmtudagskvöld komu nemendur 5. og 6. bekkjar Grunnskólans á Hólmavík heim úr námsferð í Borgarfjörð, þar sem farið var á slóðir Snorra Sturlusonar og netvinir bekkjarins í Andakílsskóla heimsóttir. Með krökkunum í ferð voru Hildur Guðjónsdóttir kennaranemi, Kristín Sigurrós Einarsdóttir umsjónarkennarari og Alfreð Gestur Símonarson skólabílstjóri.

Lagt var upp frá skólanum kl. átta um morgun og fyrst áð í Baulu þar sem tekið var vel á móti hópnum og allir fegnir að komast í húsaskjól frá rigningunni. Þá var ekið yfir hina sérstöku Hvítárbrú og heim að Hvanneyri þar sem netvinirnir sýndu heimagerða teiknimynd úr Bláa hnettinum. 5. og 6. bekkur á Hólmavík og 5. bekkur á Hvanneyri hafa verið í tölvusamskiptum í vetur, sem upphaflega hófust á samstarfi systranna Ástu og Stínu Einarsdætra sem eru tölvukennarar við skólana. Hafa samskiptin meðal annars falist í gagnkvæmri kynningu á heimaslóðum nemenda og er mikil hugur í Hvanneyringum að endurgjalda heimsóknina.

Eftir að hafa skoðað Andakílsskóla, fjósið og búvélasafnið á Hvanneyri var haldið í Reykholt. Sú heimsókn er liður í viðamiklu þemaverkefni Hildar Guðjónsdóttur kennaranema með umræddum bekk. Í Reykholti naut hópurinn leiðsagnar Dagnýjar Emilsdóttur móttökustjóra í Heimskringlu og sr Geirs Waage sóknarprests í Reykholti. Móttökur þar voru afar hlýlegar og börnin fræddust mikið, báru fram spurningar og fengu greinargóð og skemmtileg svör. Á eftir var farið í göngutúr að Snorralaug og í gömlu kirkjuna, þar sem Guðmundur Hrafn Björnsson var við málningarvinnu og leyfði hópnum að skoða kirkjuna og innviði hennar.
Eftir heimsóknina í Reykholti hélt hópurinn heim. Ferðin var í alla staði vel heppnuð og góður rómur gerður að hegðun krakkana sem og vitneskju þeirra um námsefnið en þema ferðarinnar var sem fyrr segir Snorri Sturluson og ævi hans.