19/09/2024

Fornleifarannsókn á Ströndum

Merki Náttúrustofu VestfjarðaÁ dögunum fékk fornleifaverkefni á Ströndum styrk úr Fornleifasjóði að upphæð 600 þúsund. Maðurinn á bak við það er Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur hjá fornleifadeild Náttúrustofu Vestfjarða, en verkefnið er unnið í samvinnu innlendra og erlendra stofnana. Af þátttökuaðilum má nefna Strandagaldur, Náttúrustofu Vestfjarða og NABO (North Atlantic Biocultural Organization). Ætlunin er að skoða minjar og tóftir á Strákatanga við Hveravík í Kaldrananeshreppi og rannsaka með því búsetu baskneskra hvalveiðimanna á Íslandi og samskipti þeirra við íslenskt samfélag á 15., 16. og 17. öld. 


Að sögn Ragnars er í sumar áformuð um það bil tveggja vikna könnunarrannsókn á rústum sem taldar eru eftir baskneska hvalveiðistöð á Strákatanga. Verkefnið felur í sér að gerðir verði tveir könnunarskurðir í minjarnar á Strákatanga til að kanna eðli þeirra, umfang og aldur. Hér væri um að ræða upphaf að frekari rannsókn á minjum baska í Strandasýslu og tengingu hennar við aðrar rannsóknir sem gerðar hafa verið á svipuðum minjum á Norður Atlantshafi. Ætlunin er að nálgast rannsóknarefnið þverfaglega og nýta sagnfræðilegar, fornleifafræðilegar og landfræðilegar (GIS) aðferðir.