22/11/2024

Vegaframkvæmdir að komast á gott skrið

Aðsend grein: Einar K. Guðfinnsson þingmaður
Sú umdeilda ákvörðun ríkisstjórnarinnar að fresta framkvæmdum í sumar er nú að skila árangri. Efnahagslegur ávinningur er skýr. Frestun framkvæmdanna hefur með öðru átt þátt í að draga úr efnahagslegri spennu og þenslu. Hún var forsenda þess að sveitarfélög gengju til þess verks að draga tímabundið úr framkvæmdum sínum, sem var nauðsynlegt við þessar aðstæður.

Nú er jarðvegsvinna við stórframkvæmdirnar við Kárahnjúka mjög að minnka. Frestun ríkis og sveitarfélaga hefur slegið á spennuna. Aðgerðir á sviði húsnæðismála eru að hafa sömu áhrif. Nú er því tími til þess að leggja af stað með framkvæmdir að nýju. Við munum fá góð tilboð, en því hefði ekki verið að heilsa í sumar.

Geir H. Haarde forsætisráðherra tilkynnti þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hefja framkvæmdir að nýju í stefnuræðu sinni. Undir forystu samgönguráðherra tilkynnti Vegagerðin í nýjustu framkvæmdafréttum röð framkvæmdanna.

Mjög var talað um að framkvæmdastoppið í sumar hefði komið illa við framkvæmdir til dæmis á Vestfjörðum. Þetta var alrangt, eins og ég benti meðal annars á í pistlum á heimasíðunni. En nú er semsé framkvæmdastoppið að baki, en fram kemur af forsvarsmönnum Vegagerðarinnar í svæðisútvarpi Vestfjarða, að tæknilegum undirbúningi sé ekki lokið, til dæmis vegna verkefnisins í Ísafjarðardjúpi, en útboð geti orðið um næstu mánaðarmót. Það sýnir að upphlaup stjórnarandstöðunnar út af þessum málum var algjörlega innihaldslaust. Þeir máttu  svo sem vita það sjálfir, en reyndu að slá ryki í augu fólks með afskaplega ómerkilegum málflutningi.

Framkvæmdum verður svo raðað í röð, til þess að tryggja að útboðin komi ekki hvert oní annað. Það tryggir betri árangur og gefur verktökum sem ekki ná einu útboði að spreyta sig við annað. Þetta skýrir til dæmis að verkið um Arnkötludal verður boðið út um áramótin, eða eftir að tilboð hafa verið opnuð í veginn um Ísafjarðardjúp.

Þriðja verkið, það er vegurinn um Kollafjörð í A. Barðastrandarsýslu fer svo í útboð í þessum sama áfanga nú á næstunni.

Framkvæmdir við vegagerð verða því á góðu skriði nú í vetur og vor. Ætla má að fyrri tímaáætlanir um verklok geti staðiðst. Árangurinn af aðgerðum ríkisstjórnarinnar varð hins vegar augljós efnahagslega og ætla má að muni tryggja verkkaupanum hagfelldari útboð og betra skipulag fyrir  verktakanna. Þegar upp verður  staðið mun upphlaup stjórnarandstöðunnar í sumar því sæta undrun. Enda er það svo að nú eru þingmenn hennar þegar farnir að gera lítið úr þessu máli. Þeim er það vitaskuld ljóst að viðbrögð þeirra voru algjörlega út úr kortinu og þeim til lítils sóma. En það er ósköp leiðinlegt fyrir þá að verða fyrst svo vitrir eftirá.

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra
og þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi
 
www.ekg.is.