Á síðasta hreppsnefndarfundi Hólmavíkurhrepps var til umfjöllunar tillaga frá Valdemar Guðmundssyni um úrbætur á sorphaugum Hólmavíkurhrepps. Þar lagði hann til beltagrafa eða jarðýta yrði fengin til að mölva og pressa niður timburhaug. Samþykkt var á fundinum að fela sveitarstjóra að athuga hvort tiltækilegt væri að ráða vinnuvél og verktaka til að urða timburúrgang og fleira.
Nú er grafa mætt á svæðið til að laga til, mörgum til mikillar gleði. Einn væntanlegur þátttakandi á hagyrðinganámskeiði á Hólmavík sendi okkur myndir af viðburðinum og þessa vísu:
Á minni leið ég sá þá sjón
sem hefur þurft um árabil.
Á ruslahaugum rótast nú
risagrafa að laga til.
Ljósm. Ásdís Jónsdóttir