28/04/2024

Álfar og tröll og ósköpin öll á Galdraloftinu

Sigurður undirbýr sig á GaldraloftinuNæstkomandi fimmtudagskvöld verður frumsýning á sagnakvöldinu Álfar og tröll og
ósköpin öll
á Galdraloftinu á Galdrasafninu á Hólmavík. Það er sagnamaðurinn,
galdramaðurinn og skemmtikrafturinn Sigurður Atlason sem ætlar að leiða gesti um
króka og kima íslenskrar þjóðtrúar og spretta úr spori á hlaupabraut
sagnalistarinnar. Að sögn Sigurðar verður dagskráin þrjú kvöld í viku frameftir
sumri, á fimmtudags- föstudags- og laugardagskvöldum og hefst klukkan 21:00.
"Það er góður tími" segir Sigurður, "þá fer náttúran að undirbúa nóttina og
hverskyns vættir fara á kreik, auk þess sem mannfólkið er yfirleitt búið að næra
sig af mat".

Sigurður tekur sér í munn orð Stephans G. Stephanssonar skáldsins
góða, að það sé ekki nóg að éta og kýla vömbina út af grillmat og hnossgæti, því
þá verði maður bara munnur og magi og það sé ekki beint efnilegt þegar til
lengri tíma er litið. "Sálartetrið þarf líka sína næringu og henni lofa ég á
Galdraloftinu," segir Sigurður kokhraustur.

Álfar og tröll og ósköpin öll á GaldraloftinuSigurður gefur ekki mikið upp um hvað verði á seyði á Galdraloftinu. "Það verður
bara að koma í ljós", segir hann, "en ég get gefið það upp að í ljós koma
hverskyns skringiskrúfur og kynjaverur af þessum heimi og annars". Að sögn
galdramannsins segir titill dagskrárinnar allt sem segja þarf, en hann kemur úr
ljóði sem Strandagaldri barst í smásagnasamkeppni fyrir börn sem var haldin
fyrir nokkrum árum og er eftir Dagrúnu Jónsdóttur. "Það er afar efnileg
strandastelpa sem veit lengra en nef hennar nær".

Eins og áður segir
verður frumsýning á Álfar og tröll og ósköpin öll n.k. fimmtudagskvöld kl. 21:00
og aðgangseyrir er kr. 1500. Miðapantanir eru í síma 451 3525 en einungis
takmarkaður fjöldi gesta kemst fyrir á sagnakvöldunum á Galdraloftinu á Hólmavík
eða um 30 manns. Hægt er að panta miða langt fram í tímann en dagskráin verður sýnd út ágústmánuð. Miða á dagskrána er hægt að kaupa á Galdrasafninu á Hólmavík en það er opið alla daga frá 10:00 – 18:00.