Þessa dagana, þegar sólin er lægst á lofti, eru margvíslegar kynjaverur á kreiki. Jólasveinar sjást víða og ljósmyndari strandir.saudfjarsetur.is rakst á þessa tvo kátu sveina á dögunum sem vildu endilega láta taka mynd af sér með tunglinu. Þeir Stekkjarstaur og Giljagaur sögðust vera að koma af jólaballi á Leikskólanum Lækjarbrekku á Hólmavík þar sem hefði verið svona líka ljómandi gaman. Þeir hefðu leikið sér í leiktækjunum í garðinum og svo hafi verið dansað í kringum jólatré og sungið. Krakkarnir hafi allir fengið pakka, enda væru börnin á Ströndum dæmalaust prúð og góð. Vefsíða Lækjarbrekku er á slóðinni http://123.is/laekjarbrekka.
Stekkjarstaur og Giljagaur á Hólmavík – ljósm. Ásdís Jónsdóttir