22/11/2024

Aðeins þrír eftir!

Áfram Heiða!Nú eru aðeins þrír keppendur eftir í Idol-Stjörnuleit og þeirra á meðal er Hólmvíkingurinn og Kópavogsbúinn Heiða Ólafs (sama hvað Einar Bárðarson segir). Einn úr þessu tríói mun detta út í kvöld, en þema kvöldsins er "Eighties" tónlist. Heiða, sem er fyrst á svið í Smáralind í kvöld, ræðst hreint ekki á garðinn þar sem hann er lægstur hvað varðar lagaval. Hún mun flytja tvö lög, annars vegar ballöðuna Total Eclipse Of The Heart sem Bonnie Tyler gerði frægt á sínum tíma og einnig lagið Living On a Prayer með Bon Jovi.

Hinir tveir keppendurnir sem eftir eru munu koma fram í þessari röð á eftir Heiðu og flytja eftirfarandi lög:

Davíð Smári Harðarson – Take On Me & Easy
Hildur Vala Einarsdóttir – Heart Of Glass & Careless Whisper

Hólmvíkingar og Strandamenn munu væntanlega fjölmenna í húsnæði Galdrasýningar á Ströndum á Hólmavík þegar Idolið hefst í kvöld, en Galdrasýningin hefur skotið skjólshúsi yfir Idolpartý sem haldin hafa verið í Bragganum á Hólmavík undanfarna tvo föstudaga. Mönnum er frjálst að taka nesti með sér á atburðinn.

strandir.saudfjarsetur.is vilja hér með senda baráttukveðjur til Heiðu og um leið hvetja Strandamenn og aðra til að kjósa þann keppanda sem þeim finnst bestur!