Framkvæmdir við stækkun á verslunarhúsnæði Kaupfélags Steingrímsfjarðar eru hafnar, en ákveðið var að fara í þessar breytingar á stjórnarfundi KSH í febrúar. Rekstur söluskála og verslunar KSH verður sameinaður undir einu þaki. Er byggt við norðurenda verslunarhússins og er ætlunin að sú viðbygging rými veitingasal söluskálans. Stefnt er á að nýr söluskáli verði tekinn í notkun að vori 2011. Þegar fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is var á ferðinni í síðustu viku var verið að jafna fyrir grunninum. Höfðamenn sýndu snilli sína með hæðarmæli og Þórður Sverrisson var jafnvígur á skóflu og gröfu.
Framkvæmdir hafnar – ljósm. Jón Jónsson