22/11/2024

Vaxtarsamningur Vestfjarða

Frá HólmavíkNýlega kom út ritið Vaxtarsamningur Vestfjarða sem er gefið út af Iðnaðarráðuneytinu og inniheldur tillögur Verkefnisstjórnar um byggðaáætlun fyrir Vestfirði. Í ritinu eru allmargar tillögur sem snúa að því að styrkja byggð og atvinnulíf á Vestfjörðum. Langflestar eru þær almenns eðlis eða snúa sérstaklega að því að styrkja Ísafjarðarsvæðið sem byggðakjarna. Þó eru fáeinar tillögur sem snúa beinlínis að Strandasýslu.

Ein tillagan gerir t.d. ráð fyrir að Héraðsskjalasafni fyrir Strandasýslu verði komið á laggirnar á Hólmavík (bls. 65). Tímaáætlun við þá hugmynd gerir ráð fyrir að það verði fullgert fyrir 1. júní 2006.

Tvær hugmyndir sem snúa að samgöngubótum á Ströndum koma fram í skýrslunni. Önnur snýst um svonefndan Tröllatunguveg (um Arnkötludal og Gautsdal, sá sami og hér á vefnum er kallaður Vonarholtsvegur) og er þar rætt um að hefja undirbúning 2005. Markmiðið er samkvæmt skýrslunni að ljúka við veg með bundnu slitlagi frá Hólmavík inn á þjóðveg 1 á gildistíma núverandi samgönguáætlunar (bls. 68). Núgildandi samgönguáætlun mun ná til ársins 2014 og kemur nokkuð á óvart að ítarlegri kröfur séu ekki settar fram.

Hinar vegabæturnar snúast um veginn norður í Árneshrepp – Strandaveg. Markmiðið með þeirri hugmynd er að byggja upp ferðamannaleiðir á Vestfjörðum og í tímaáætlun er rætt um að hefja undirbúning árið 2005, ljúka síðan vegagerð með malarslitlagi og síðan að fullu með bundnu slitlagi fyrir árið 2016.

Aðrir vegir á Ströndum eru ekki ræddir í skýrslunni.