28/03/2024

Fjöður í hatt fréttastofu Stöðvar 2

Þórólfur Halldórsson, PatreksfirðiKristján Már Unnarson fréttamaður á Stöð 2 á hrós skilið fyrir fréttaflutning sinn í gærkvöldi af þeim tíðindum og þeirri stefnumörkun í vegagerð á Vestfjörðum sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra kynnti á fundi á Patreksfirði sl. þriðjudagskvöld.

Kristján Már kveikti á perunni með það að með því að boða þverun Þorskafjarðar, Djúpafjarðar og Gufufjarðar í Reykhólahreppi og gerð jarðganga milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar yrði Vestfjarðavegur styttur samtals um tæpa 50 km, og yrði þannig á ný stysta mögulega landleið milli Ísafjarðar og Reykjavíkur, aðeins um 408 km. Hann vakti þannig athygli á því að í framtíðinni yrði vegurinn um suðurfirði Vestfjarða líklega á ný aðal þjóðbrautin milli Ísafjarðar og Reykjavíkur. Jafnframt að þegar þverun Mjóafjarðar í Djúpi er lokið verður sú leið um Þorskafjarðarheiði 441 km milli Ísafjarðar og Reykjavíkur og næst stysti kosturinn.

Þriðji stysti kosturinn verður svo til með vegi milli Stranda og Reykhólahrepps um Arnkötludal sem verður um 457 km og mun styrkja leiðina um Djúp og gagnast Hólmvíkingum mjög vel til framtíðar.

Fjórðungsþing Vestfirðinga ályktaði sl. haust um nauðsyn þess að gerð yrðu jarðgöng undir Dynjandisheiði um leið og göngin milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar.  Undir þá ályktun tók verkefnisstjórn um byggðaáætlun fyrir Vestfirði sem skilaði iðnaðarráðherra tillögum sínum í byrjun mánaðarins.  Með því móti einu væri hægt að tryggja 1400 íbúum Vestur-Barðastrandarsýslu aðgang árið um kring að byggðakjarnanum Ísafjarðarbæ, sem áhersla er lögð á að verði kjarnasvæði fyrir Vestfirði.

Göng undir Dynjandisheiði stytta vesturleiðina enn um 12 km og gera má ráð fyrir nokkurri styttingu til viðbótar á öðrum köflum leiðarinnar, m.a. í botni Kjálkafjarðar.  Þannig má gera ráð fyrir að vesturleiðin um suðurfirðina á milli Ísafjarðar og Reykjavíkur verði í framtíðinni aðeins um 390 km, jafnvel innan 10-15 ára.  Að auki verða þá tryggðar öruggar heilsárssamgöngur milli byggðakjarnanna við Djúp og á sunnanverðum Vestfjörðum, til ótvíræðra hagsbóta fyrir þorra Vestfirðinga.

Ég skil vel að Ísfirðingar og Bolvíkingar séu ákafir í að stytta núverandi sumarleið til Reykjavíkur um 40 km með vegi um Arnkötludal.  Ég geng út frá því sem vísu að þeir muni ekki af minni ákafa fagna því ef stytta má heilsársleiðina enn frekar, jafnvel um 65 km í viðbót ef göng undir Dynjandisheiði bætast við þær styttingar sem samgönguráðherra hefur þegar boðað. 

Það voru óneitanlega stór tíðindi sem samgönguráðherra flutti á Patreksfirði í vikunni
og sætir furðu að fréttastofa Stöðvar 2 skuli ein allra fréttastofa hafa kveikt á því, rannsakað málið frekar og unnið og flutt greinargóða frétt um það, og hafi þeir góða þökk fyrir vel unnið verk.
 
Patreksfirði, 13. febrúar 2005,
Þórólfur Halldórsson