22/11/2024

Ákveðið fljótlega um umferð um Arnkötludal í vetur

Í Arnkötludal í ágústÍ frétt á vef Vegagerðinnar um verkefni sem ekki tekst að ljúka fyrir veturinn er vegagerðin við nýja veginn um Arnkötludal talin upp (vegur 605). Segir í fréttinni að samkvæmt útboðsgögnum eigi útlögn á neðra burðarlagi að vera lokið fyrir 1. desember nk. og frágangur á neðra burðarlaginu á að vera þannig að hægt sé að heimila umferð nú í vetur. Hins vegar hafi ekki verið tekin ákvörðun um hvort umferð verði leyfð í vetur og eru annars vegar nefnd umferðaröryggismál þar sem ekki verður búið að koma fyrir vegriðum og hins vegar vetrarþjónusta sem erfitt verður með. Um þetta verður tekin ákvörðun fljótlega, segir á vef Vegagerðarinnar.

Röksemdirnar um umferðaröryggið og vegriðin koma Strandamönnum nokkuð á óvart, því hingað til hefur ekki þótt þurfa vegrið við vegi á svæðinu. Ekkert slíkt fyrirbæri er til dæmis að finna á leiðinni úr botni Hrútafjarðar norður til Hólmavíkur, 111 kílómetra leið, þrátt fyrir að vissulega sé og hafi verið full þörf á vegriðum á fjölmörgum stöðum á þeirri leið. Vegagerðinni og samgönguyfirvöldum hefur hins vegar þótt að vegriðalausir vegir séu nægilega öruggir fyrir Strandamenn til þessa og kemur þetta viðhorf því á óvart.

Um framhaldið segir á vef Vegagerðarinar að samkvæmt útboðsgögnum eigi fyrra lag klæðingar að vera komið á veginn fyrir 15. júlí á næsta ári og þá á að leyfa almenna umferð um Arnkötludal. Verkinu á síðan að vera að fullu lokið fyrir 1. september 2009. Ekkert bendir enn þá til að þessar dagsetningar standist ekki, segir á Vegagerðarvefnum.