Á síðasta fundi Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar kom fram að Orkubú Vestfjarða hefur sótt um að leggja streng frá Hátungum á Steingrímsfjarðarheiði að Nauteyri við Djúp til að samtengja rafdreifikerfið úr Ísafjarðardjúpi við kerfið á Hólmavík og setja þrjár jarðspennistöðvar á leiðinni. Samþykkt var samhljóða að verða við erindinu og staðfesti sveitarstjórn það síðan á fundi sínum. Einnig samþykkti nefndin að ítreka beiðni til Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða um að setja miða í ónýtar bifreiðar þar sem óskað væri eftir því að þær verði fjarlægðar innan ákveðins tíma. Að öðrum kosti verði þær fjarlægðar af sveitarfélaginu á kostnað eiganda.
Þá áréttaði nefndin að sett verði upp skilti hið fyrsta sem sýnir að óheimilt er að leggja stórum bifreiðum innanbæjar, en sveitarstjórn benti á um leið og hún samþykkti fundargerðina að bannið næði aðeins til íbúðagatna.
Einnig var ítrekuð beiðni um að gengið verði frá svæðinu þar sem olíutankarnir stóðu, ofan við bryggjuna á Hólmavík, hið fyrsta og sveitarstjóra falið að sjá til þess að það verði gert.