22/11/2024

Menningarráð Vestfjarða auglýsir eftir umsóknum

Menningarráð Vestfjarða hefur nú auglýst eftir styrkumsóknum vegna seinni úthlutunar á árinu 2008 til menningarverkefna á Vestfjörðum. Um er að ræða styrki til afmarkaðra menningarverkefna og eru umsóknir bornar saman á samkeppnisgrundvelli, þannig að fara þurfa saman áhugaverð verkefni og góðar umsóknir til að líkur séu á að styrkur fáist. Menningarráðið hefur jafnframt ákveðið að standa fyrir námskeiði í gerð styrkumsókna í september. Verður slíkt námskeið haldið á Patreksfirði, Ísafirði og Hólmavík og kynnt betur þegar nákvæm tímasetning liggur fyrir. Þar mun Jón Jónsson menningarfulltrúi Vestfjarða leiðbeina um grundvallaratriði við gerð styrkumsókna til Menningarráðsins og annarra aðila sem sótt er um fjármagn til.

Menningarráð Vestfjarða hefur skilgreint ákveðna áhersluþætti við hverja úthlutun til þessa og við síðari úthlutun 2008 verður litið sérstaklega til menningarverkefna sem fela í sér eftirtaldar áherslur:
   a. Nýsköpun á sviði lista og menningarstarfs.
   b. Verkefni sem miða að fjölgun starfa.
   c. Samstarf milli menningarstofnanna, byggðarlaga eða listgreina og uppsetning viðburða á fleiri en einum stað.
   d. Útgáfu fræði- og ritverka sem lúta að menningu og sögu Vestfjarða.
   e. Útgáfu mynd- og hljóðdiska sem hafa menningarlegt gildi og sýnilega sérstöðu.

Umsóknarfrestur er til föstudagsins 3. október og er rafrænt umsóknarblað, leiðbeiningar og úthlutunarreglur að finna á vef Menningarráðsins www.vestfirskmenning.is. Þar má einnig sjá yfirilit um fyrri styrkveitingar Menningarráðsins en samtals hefur verið stutt við 99 vestfirsk menningarverkefni með fjármagni að upphæð rúmar 37,6 milljónir í tveimur úthlutunum til þessa. Allar nánari upplýsingar gefur menningarfulltrúi Vestfjarða, Jón Jónsson, í síma 891-7372 og netfanginu menning@vestfirdir.is.