29/03/2024

Rannsóknin á Strákatanga breytir sögu 17. aldar

Um sextíu manns mættu á opinn dag Strandagaldurs og Náttúrustofu Vestfjarða á Strákatanga í Hveravík sl. laugardag þar sem fram fór kynning á 17. aldar hvalveiðistöðinni sem rannsökuð hefur verið þar frá árinu 2004. Í ljós hafa komið mikil mannvirki sem tengjast hvalbræðslu erlendra manna. Engar heimildir er að finna um bræðsluna í skráðri sögu 17. aldar á Íslandi og ljóst má vera að starfsemi hennar hefur verið haldið leyndri gagnvart æðstu yfirvöldum á sínum tíma og síðan fallið í gleymskunnar dá. Kvikmyndatökumaður strandir.saudfjarsetur.is var á staðnum og slóst í för með Kristínu Einarsdóttur fréttaritara Ríkisútvarpsins og ræddi við Ragnar Edvardsson, minjavörð Vestfjarða, um rannsóknina í Hveravík.