Um hálftólf í dag kviknaði í íbúðarhúsinu á Finnbogastöðum í Trékyllisvík. Guðmundur Þorsteinsson bóndi var inni, en komst út áður en eldurinn breiddist út. Heimamenn reyndu eftir fremsta megni að slökkva eldinn, en árangurslaust. Þegar slökkvilið frá Hólmavík og Drangsnesi komu á staðinn um 12:30 var ekkert hægt að gera og ekki bætti úr að allhvass vindur var af norðaustri,15 til 17 m/s. Ekki tókst að bjarga neinu úr brunanum og er allt innbú og persónulegir munir ónýtir auk hússins. Þá drápust tveir hundar sem voru í kjallaranum. Nú um kaffileytið standa bara veggirnir eftir og þakið sigið. Húsið var steinhús, en timburgólf og öll innrétting úr timbri.
Fleiri myndir má finna á fréttavefnum www.litlihjalli.it.is.
Ljósm. Jón G.G. / www.litlihjalli.it.is.