Á síðasta fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar kom frm að engin lögreglubifreið var til staðar á Hólmavík í rúma 10 daga á meðan bifreiðin var í viðgerð. Þótti sveitarstjórn þetta algerlega óviðunandi og óverjandi að jafn mikilvægt öryggistæki skuli ekki vera til staðar beri t.d. slys að höndum. Þá getur lögreglan ekki sinnt störfum sínum við umferðareftirlit sem eykur hættu á hraðakstri þar sem hún er ekki sýnileg, segir í fundargerðinni. Var samykkt að senda lögreglustjóranum á Vestfjörðum og dómsmálaráðherra ályktun vegna þessa.
Á vefnum www.ruv.is kemur fram að lögregluþjónar á Hólmavík hlupu undir bagga og lánuðu embættinu einkabíla sína á meðan lögreglubíllinn var bilaður. Gírkassinn í bílnum mun hafa bilað og bíllinn því sendur til viðgerðar á Borðeyri. Viðeigandi varahluti vantaði og því þurfti að panta nýjan gírkassa frá Reykjavík sem tók hins vegar nokkra daga. Laganna verðir voru því bíllausir í meira en 10 daga.
Á vefnum er vitnað í Önundur Jónsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglustjóranum á Vestfjörðum, sem segir að ekkert hættuástand hafi skapast. Björgunarsveitarbíllinn á staðnum hafi verið til taks ef á hefði þurft að halda. Hefði nokkrum manni dottið í hug að þetta tæki svona langan tíma, hefðum við sent þeim bíl frá okkur eða fengið bíl að sunnan, segir Önundur á ruv.is.