Á Reykhóladegi fyrir réttri viku var gönguferð með leiðsögn um Borgarland að Bjartmannssteini meðal þess sem í boði var. Björn Samúelsson á Reykhólum sá um leiðsögnina og voru um 20 þátttakendur í ágætu veðri. Borgarland liggur á Borgarnesi milli Króksfjarðar og Berufjarðar og er ljómandi fallegt svæði. Tjarnir og mýrar, fuglalíf og gróðurfar, klettaborgir og fallegt útsýni gera gönguferð um svæðið ævintýri líkasta. Austan Borgarness er útsýni yfir Króksfjörð og í suður sér yfir Saurbæ, Skarðströnd og Breiðafjarðareyjar. Vestan megin, handan Berufjarðar, er Reykjanes og Reykjanesfjall með Barmahraun og Barmahlíð sem Jón Thoroddsen orti um og kallaði hlíðina sína fríðu.
Borgarnes er miðsvæðis á Króksfjarðareldstöð sem var megineldstöð og er Borgarlandið alsett sérkennilegum klettaborgum, hnjúkum og tindaröðum, sem eru fornar gígrásir eldstöðvarinnar. Samspil fjölmargra afbrigða hefur skapað fjölbreyttar og litskrúðugar bergmyndanir. Vestan undir bænum Borg sem staðsettur er undir Fálkahamri og Háuborg er bólstraberg. Það er vísbending um það að þar hafi gosið neðansjávar.
Yst á Borgarnesi er síðan basalthóllinn Bjartmannssteinn, forn gígtappi. Bjartmannssteinn er kaupstaður, miðstöð viðskipta huldufólksins í sveitinni. Sagt er að þangað drífi að huldufólk úr allri sveitinni á haustin og vorin þegar hulduskipin koma þar að. Sjónarvottar segja huldufólksmergðina svo mikla að kauptíð í Stykkishólmi eða Flatey sé ekki svipur hjá sjón í samanburði.
Annað séreinkenni Borgarlands eru sjávarmenjar sem finnast mjög víða á nesinu. Á ísöld hefur Borgarnes orðið fyrir ágangi skriðjökla og þegar ísinn hopaði hefur mest allt landið verið undir sjó. Í Borgarlandi er því víða að finna minjar um mismunandi sjávarstöðu.
Gönguferð í Borgarlandi – ljósm. Jón Jónsson og Dagrún Ósk Jónsdóttir