Miklar vegaframkvæmdir standa nú yfir í Mjóafirði og Ísafirði við Ísafjarðardjúp. Unnið er af kappi við 10 kílómetra kafla í vestanverðum Ísafirði frá slitlagsendanum á Eyrarhlíð út undir Svansvík, en því verki á að vera lokið í síðasta lagi 1. nóvember 2008. Einnig er unnið að vegi í Mjóafirði þar sem fjörðurinn verður þveraður við Hrútey og síðan lagður nýr vegur yfir Vatnsfjarðarháls og yfir Reykjarfjörð. Á þessu verki einnig að ljúka haustið 2008, þannig að þá verður hægt að aka til Súðavíkur frá Hólmavík á bundnu slitlagi. Verður Súðavík og hin þorpin þar í nágrenninu fyrstu þéttbýlisstaðirnir sem Hólmvíkingar geta ekið til á bundnu slitlagi.
Enn eru þó verkefni framundan á þessum hluta Djúpvegar, einbreitt slitlag er í Seyðisfirði og í Álftafirði og hefur ekki heyrst hvenær farið verður í að breikka þá vegi. Eins er töluvert af einbreiðum brúm á leiðinni milli Hólmavíkur og Ísafjarðar. Fréttaritari var á ferðinni þennan veg á dögunum og virtist sem viðhaldi væri ekki sinnt sem skyldi á þeim malarvegi sem enn er farinn milli Ísafjarðar og út Mjóafjörðinn og verður áfram aðalleiðin næstu misserin. Sérstaklega er rétt að vara við hættulegum holum við brýr í Mjóafirði, bæði á Botnsá, Heydalsá og við litla brú utar við vestanverðan Mjóafjörðinn.
GSM-samband á Steingrímsfjarðarheiði var bætt í sumar og nú er samband á háheiðinni, í efri hluta Norðdals og fremri hluta Staðardals. Ætlunin er að setja upp annan sendi sem á að dekka svæðið vestar á heiðinni og í Lágadal síðar í haust. Enn er þó sambandslaust úr Staðardalnum til Hólmavíkur, en það verður væntanlega lagfært með öðrum stofnvegum á landinu sem á að setja alla í GSM-samband á næsta ári. Eins er víða sambandsleysi inni í fjörðunum í Djúpinu, en yfirleitt samband þar sem sér yfir að Bæjum á Snæfjallaströnd.
Mikil vegagerð í Mjóafirðinum – ljósm. Jón Jónsson