22/11/2024

Rýnt í átta liða úrslit Spurningakeppninnar

Nú styttist óðum í átta liða úrslit Spurningakeppni Strandamanna, en þau munu fara fram í Félagsheimilinu á Hólmavík næstkomandi sunnudag, þann 1. apríl. Að vanda hefjast keppnirnar kl. 20:00. Eftir kvöldið munu fjögur lið standa eftir og komast þau áfram á úrslitakvöldið sem verður haldið sunnudaginn 15. apríl. Það er því til mikils að vinna og eflaust verður allt lagt í sölurnar. Að sögn Arnars S. Jónssonar, stjórnanda keppninnar, býst hann við spennandi keppnum á sunnudaginn og telur að drátturinn í átta liða úrslitin hafi heppnast vel. Arnar segist einnig spá því að „áhorfendur á sunnudaginn muni öðlast nýjan skilning á hugtökunum „spenna“ og „jafnt“.

„Liðin eru jöfn og ég sé ekki neina viðureign þar sem hægt er að búast við bursti eða eitthvað þannig. Oft er þetta spurning um heppni eða óheppni, eins og sýndi sig í fyrstu umferðinni og í gegnum árin. Ég býst við mikilli baráttu.“

„Keppnin milli Heilbrigðisstofnunarinnar og Neista er nú bara gjörsamlega óútreiknanleg en svo er athyglisvert að líta á lið kennara við Grunnskólann á Hólmavík  – þau hljóta að þrá það afar heitt að landa Viskubikarnum aftur, en Leikfélagið hefur kannski sýnt ákveðna kænsku með að setja upp leikrit akkúrat núna og bjóða liðsmönnum í kennaraliðinu að vera með. Þá hugsa ég að Skrifstofa Strandabyggðar hljóti að stefna á sigur í keppninni þetta ár, enda hafa þær verið með óbreytt lið frá upphafi og alltaf geysisterkar. Það verður þó ekki auðvelt gegn Grunnskólanum á Drangsnesi. Liðið sem má kannski helst vara sig á sunnudaginn er lið Sparisjóðsins – Hólmadrangsmenn hljóta að mæta dýrvitlausir til leiks með hnefana kreppta og blóðbragð í munni eftir að hafa komist áfram sem stigahæsta taplið úr fyrstu umferð. Það held ég nú,“ sagði Arnar S. Jónsson í samtali við strandir.saudfjarsetur.is.

Keppnirnar hefjast kl. 20:00 og aðgangseyrir er aðeins kr. 500.- fyrir eldri en 16 ára. Hér gefur að líta keppnir kvöldsins:

Heilbrigðisstofnunin á Hólmavík – Umf. Neisti
Leikfélag Hólmavíkur – Kennarar við Grunnskólann á Hólmavík
Grunnskólinn Drangsnesi – Skrifstofa Strandabyggðar
Hólmadrangur – Sparisjóður Strandamanna