22/11/2024

Nær músalaust við Djúp

Músagangur hefur verið með minnsta móti víða um land í haust og segir Indriði bóndi Aðalsteinsson á Skjaldfönn við Djúp að veiðikötturinn mikli, sem frægur varð fyrir minka- og músadráp síðasta vetur, beri sig nú hörmulega. Komi hann heim að bæ og heimti dósamat, en hafi síðustu haust gengið sjálfala og verið fullsaddur af músaveiðinni einni saman. Ekki er ljóst hvað veldur þessum breytingum í lífríkinu sem eru áberandi víðar en á Skjaldfönn þetta haustið. Indriði hefur sett saman vísu um ástand músastofnsins og fleiri þjóðmál sem birtist hér að neðan:

Vort þjóðfélag nú af ýmsum ávinning státar
og ástæðulaust að fyllast trega og sút,
því Árni Johnsen við "tæknileg mistök" sig mátar
og músa- og framsóknargen eru að deyja út.