20/04/2024

Jólatippið

Þeir Kristján Sigurðsson og Jóhann Áskell Gunnarsson fá ekkert frí í enska boltanum þessi jól frekar en leikmenn. Þeir hafa báðir hrist fram úr erminni afar ólíkar jólaspár – eru ósammála um sjö leiki. Keli er nýliði í leiknum, en Kristján er á beinu brautinni eftir að hafa unnið sinn fyrsta sigur um síðustu helgi. Keli lætur það ekkert á sig fá og baunar á Kristján í bundnu máli og heitir því að "senda hann á koppinn" með sinni spá. Kristján hefur hins vegar vissar áhyggjur af tipphæfileikum sínum, en honum hættir til að gleyma að tippa í Söluskála KSH eftir að hafa skilað spánni hér á vefnum – hann gæti orðið af milljónum ef illa (eða vel) fer. Jólaspár og umsagnir kappanna má sjá hér fyrir neðan. Stjórnandi tippleiksins vill að lokum nota tækifærið og senda öllum Strandamönnum innilegar jóla- og nýárskveðjur.

1. Liverpool – Newcastle

Kristján: Liverpool mæta eins og grenjandi ljón eftir að hafa tapað ósanngjarnt  í síðasta leik fyrir Sao Paulo. Tákn: 1.

Keli: Til að halda frið í vinnunni myndi ég setja 2 en ég held að Owen og félagar komi á óvart – því set ég jafntefli. Tákn: X.

+++

2. Man. Utd. – WBA

Kristján: Man. Utd. fer létt með þetta. Victor Manchester aðdáandi segir að þetta verði ekki spurning. Tákn: 1.

Keli: Þetta er öruggur heimasigur hjá Ronnny og félögum. Tákn: 1.

+++

3. Wigan – Man. City

Kristján: Wigan vann síðasta leik en ég hef tröllatrú á Man. City. Tákn: 2.

Keli: Þetta er erfiður leikur, því Wigan eru sterkir á heimavelli en City að spila vel undanfarið. Því held ég að þetta verði jafntefli í þessum leik… ég held að Stjáni klikki þarna. Tákn: X.

+++

4. Sunderland – Bolton

Kristján: Bolton er skemmtilegt lið og tekur þetta á útivelli. Skemmtilegt hvað maður heldur alltaf með þeim liðum sem Íslendingar hafa einhvern tímann spilað með. Tákn: 2.

Keli: Ég held að þetta verði öruggt hjá Bolton þrátt fyrir skellinn í bikarnum um daginn. Tákn: 2.

+++

5. Portsmouth – West Ham

Kristján: Heimavöllurinn reynist Portsmouth vel og þeir vinna. Tákn: 1.

Keli: Ég held að stjóraskiptin hjá Portsmouth fari að skila sér í fleiri stigum. Tákn: 1.

+++

6. Middlesbro – Blackburn

Kristján: Middlesboro er alltaf að skila verri árangri heldur en maður heldur. Vonandi hafa þeir þetta. Tákn: 1.

Keli: Ég held að þetta verði steindautt jafntefli. Tákn: X.

+++

7. Aston Villa – Everton

Kristján: Aston Villa tekur Everton sem ekki er í sem mestu stuði þessar vikurnar. Tákn: 1.

Keli: Ég get ekki verið þekktur fyrir annað en að setja útisigur á þennan leik, það hlýtur að fara að rofa til hjá þeim bláu. Áfram, þið vitið hverjir. Tákn: 2.

+++

8. Wolves – Reading

Kristján: Ég ætla að leyfa mér að spá Úlfunum sigri þó Reading-menn séu sennilega betri í ár. Þetta er bara nostalgía síðan Frank Worthington og fleiri gerðu garðinn frægan hér um árið með Úlfunum. Tákn: 1.

Keli: Nú fer að vandast málin því þó að Ívar og félagar hafi verið að spila vel þá eru Wolves mikið jafnteflislið. Tákn: X.

+++

9. Sheff. Utd. – Norwich

Kristján: Norwich hefur þetta, enn og aftur veðja ég á þá vegna Sigga Orra sem heldur mjög mikið með þeim. Tákn: 1.

Keli: Þetta verður öruggur heimasigur í þessum leik. Tákn: 1.

+++

10. Leeds – Coventry

Kristján: Coventry leggur Leeds á útivelli og Arnar Jónsson Coventry maður verður [alveg ótrúlega] ánægður. Tákn: 2.

Keli: Ég veit ekkert um þessi lið ég held að Leeds séu örlítið sterkari því spái ég heimasigri. Tákn: 1.

+++

11. Derby – Luton

Kristján: Heimavöllurinn dugar Derby. Tákn: 1.

Keli: Eina sem ég veit um þessi lið er að Ingi Vífill heldur með Derby en það dugar ekki til, ég held að Luton vinni þennan leik. Tákn: 2.

+++

12. Burnley – Stoke

Kristján: Burnley tekur Stoke. Tákn: 1.

Keli: Stoke hjartað slær ennþá hratt hjá mörgum. Þessi lið eru á svipuðum stað í deildinni en ég hallast helst að heimasigri. Tákn: 1.

+++

13. Ipswich – C. Palace

Kristján: Enn og aftur veðja ég á Ipswich. Tákn: 1.

Keli: Ég veit ekki hvað á að segja um þennan leik en ég held að þetta verði heimasigur. Tákn: 1.

+++

Kristján: Þá er jólaseðillinn kominn og vonandi gengur hann jafnvel og síðast. Raunar gleymdi ég að tippa um síðustu helgi og leist ekkert á blikuna í upphafi. Hélt jafnvel að ég myndi fá 13 rétta. En nú kemur það vonandi, ég fer í dag og kaupi seðil. Gleðileg jól og kærar þakkir fyrir frábæran vef, Jón, Siggi, Addi og allir hinir.

Keli: Ég sauð þessa spá saman í fljótheitum því ég fékk seðilinn svolítið seint. Ég veit að Kristján er mjög sigurviss en ég leik á hann með nokkrum óvæntum úrslitum! Sendi öllum jólakveður héðan úr Árneshreppi – smá vísa í lokin:

Sigurviss hann Stjáni er
og svoldið er hann grobbinn.
Að stoppa stjórann ætla mér
og senda hann á koppinn.