22/11/2024

Þarfagreining um námsver á Hólmavík birt á strandir.saudfjarsetur.is

Í mars á þessu ári vann Viktoría Rán Ólafsdóttir starfsmaður AtVest á Hólmavík þarfagreiningu vegna námsvers á Hólmavík. Sendur var stuttur spurningalisti til einstaklinga á Ströndum sem vitað var að stunduðu fjarnám. Einnig var hægt að svara könnuninni rafrænt á strandir.saudfjarsetur.is. Markmið þarfagreiningarinnar var að kanna hversu margir stunduðu fjarnám á svæðinu eða höfðu áhuga á námsveri og til að fá vísbendingar um þarfir fjarnema fyrir slíkri aðstöðu. Þarfagreiningin var unnin að beiðni Hólmavíkurhrepps í framhaldi af fyrirspurn sem barst vegna málefnisins á kynningarfundi AtVest á Hólmavík í byrjun ársins.

"Þarfagreiningin sýnir klárlega að stór hópur fólks á Ströndum er áhugasamt á að nýta sér þjónustu námsvers ef slíkt er í boði. Greiningin varpar ljósi á þann fjölda sem stundar fjarnám á svæðinu. Greiningunni var ekki ætlað að fara ítarlega í útfærslu á slíku námsveri, en engu að síður komu margar góðar ábendingar frá svarendum. Svörin voru látin tala sínu máli til að mikilvægi efnisins tapaðist ekki. Það verður að teljast áhugavert hversu margir stunda eða hafa hug á því að stunda fjarnám á svæðinu. Hver þróun svæðisins verður í framtíðinni byggir klárlega á færni íbúa og menntunarstigi þeirra. Niðurstöðurnar kalla því á enn frekari greiningu á því hvað þarf til að uppfylla þarfir og væntingar framtíðar námsmanna á Ströndum" segir m.a. í lokaorðum skýrslunnar. 

Um þessar mundir vinnur Kristín Einarsdóttir kennar á Hólmavík að tillögum og úttekt á húsnæði á Hólmavík fyrir námsver sem lagt verður fyrir sveitarstjórn Strandabyggðar.
 
Hægt er að nálgast niðurstöðurnar úr þarfagreiningunni á pdf formi hér á strandir.saudfjarsetur.is með því að smella hér.