19/09/2024

Opna almenna umræðu um atvinnumál

Á síðasta fundi atvinnumálanefndar Strandabyggðar var ákveðið að efna til almennrar umræðu um atvinnumál og opna spjallþráð á strandir.saudfjarsetur.is um málefnið. Stefnt er að því að fjalla um sem flestar greinar atvinnulífsins og skipta umræðunni niður í þriggja vikna tímabil. Fyrsta umræðan verður um ferðamál en nefndin er að safna hugmyndum um það hvernig er hægt að styrkja ferðaþjónustuna sem framtíðar atvinnugrein á Ströndum. Í framhaldi af ferðamálaumræðunni verður síðan fjallað um landbúnaðarmál og svo koll af kolli.  Íbúar héraðsins eru hvattir til að velta vöngum og koma með tillögur um hvernig hægt að leggja ferðaþjónustunni betri grunn með tilliti til eftirfarandi fimm þátta sem greint er frá hér að neðan. Tengil inn á umræðuna er að finna í efstu tenglaröðinni hér vinstra megin til hliðar.

1.       Afstaða (Viljum við íbúar vera í og auka ferðaþjónustu?)
2.       Aðgangur (Er umhverfið aðlaðandi? Eru vegir og samgöngur innan svæðis góðar?)
3.       Aðbúnaður (Húsaskjól, verslun, matsala – uppfyllum við grunnþarfir ferðamannsins?)
4.       Aðdráttarafl (Afþreying, skemmtun, tómstundir, menning, atburðir, náttúra)
5.       Auglýsingar (Markaðsetning Stranda, kynning, innanlands/erlendis?)
 
Hvert er viðhorf þitt? Hvað getur sveitarfélagið og samfélagið gert til að styrkja atvinnugreinina Ferðaþjónusta?
 
Það eru sem flestir hvattir til að taka þátt í umræðunni og velta fyrir sér hver þörf greinarinnar er og jafnvel koma með tillögur til að vegur hennar geti orðið meiri en þegar er.