22/11/2024

Hrútadómarnir í Sævangi í dag

Í dag verður árlegt Meistaramót í hrútadómum haldið í Sævangi við Steingrímsfjörð og hefst kl. 14.00. Jón Jónsson framkvæmdastjóri Sauðfjársetursins segir að allt sé að verða tilbúið fyrir keppnina og er bjartsýnn á góða mætingu: "Hér á Ströndum var fjölmennt og skemmtilegt hagyrðingamót í gær og ég býst við fjölda góðra gesta til viðbótar við heimamenn. Þessi skemmtun hefur mjög verið að festa sig í sessi." Til viðbótar við hrútaþuklið verður veglegt kaffihlaðborð og kjarnmikil kjötsúpa á boðstólum í allan dag í kaffistofunni í Sævangi og kostar 1.000.- Eins er sögusýningin Sauðfé í sögu þjóðar opin, en kaffistofan og sýningin eru opin frá 10:00-18:00.

Nú er belgingur úr austri við Steingrímsfjörð, en þurrt í veðri: "Við færum okkur kannski í skjól undir húsveggnum í Sævangi með hrútana ef ekki lægir og höfum harmonikkuleik og fjör inni, en annars köllum við nú ekki allt ömmu okkar í þessum efnum," segir Jón.

"Það er þó þurrt núna og lítur ekkert illa út. Ég man eftir einum Furðuleikunum sem Sauðfjársetrið stóð fyrir í Sævangi fyrir tveimur árum, þar sem var alveg slagveðursrigning og minnst níu vindstig úr norðaustri. Samt tókst mér að fá tuttugu krakka og einn fullorðinn með mér út á völl í fjölskyldufótbolta. Þá spiluðum við hinn æfaforna knattleik Hringlanda sem er hvergi þekktur utan Stranda og ég er viss um að krakkarnir gefa það ekkert eftir í dag að fara líka í bolta og leiki úti."