23/11/2024

Galdratákn á himni?

Í gærkvöldi sást óvenju áberandi og stór rosabaugur í kringum tunglið á björtum himninum en rosabaugar sjást stundum í kringum tunglið, en oftar þó um sólina. Á Vísindavef Háskóla Íslands er fjallað um rosabauga þar sem þetta kemur fram og segir m.a. annars að rosabaugar myndast við ljósbrot í ískristöllum í háskýjum og oftast í blikuskýjum. Rosabaugur myndast helst í kringum mánann á fullu tungi en aðstæður í gærkvöldi hafa væntanlega verið mjög sérstakar þar sem tunglið var langt í frá að geta talist fullt.

Rosabaugar eru einnig nefndir í galdrafræðum en til er mjög góður verndarstafur sem ber heitið Rosabaugur hinn minni. Hann skal ristur á mórautt hundtíkarskinn holdrosarmegin og bera í hann blóð úr svörtum fressketti sem skorinn hefur verið á háls undir fullu tungli. Rosabaugur er góður stafur móti uppvakningum, sendingum og galdri. Er þá gott að mæla fyrir munni sér:

"Komi mér hjálp af jörðu, sigur af sólu, sæla af tungli og styrkur af englum drottins".

Einnig segir í formála sem fylgir galdrastafnum Rosabaugi að ef reka skal út eldglæringadraug eður djöful, þá skal hrækja, skvetta keytu og ota skinninu með stafnum svohljóðandi:

Undan vindi vondum sendi,
óskir ferskar raski þrjóskum
galdurs eldur gildur holdið
grenni, kenni og innan brenni.

Hægt er að fræðast meira um galdra á heimasíðu Galdrasýningar á Ströndum www.galdrasyning.is og á Vísindavef Háskólans um náttúrurfyrirbrigðið rosabaug á þessari slóð.