29/03/2024

762 ár frá Flóabardaga

150-beitarhusÍ dag, 25. júní, eru hvorki meira né minna en 762 ár liðin frá Flóabardaga. Flóabardagi var háður á Húnaflóa skammt frá Ströndum á Sturlungaöld, nánar tiltekið árið 1244. Bardaginn er enn sem komið er eina sjóorrustan sem háð hefur verið við Ísland þar sem Íslendingar hafa barist sín á milli. Fylkingarnar sem börðust voru undir stjórn Þórðar kakala Sighvatssonar og Kolbeins unga Arnórssonar. Þórður hafði lengi sóst eftir að ná völdum á Norðurlandi eystra, föðurleifð sinni, þar sem Kolbeinn sat við völd og áttu þeir í miklum deilum.

Þórður kakali bjó 15 skipa flota sinn í Árnesey í Trékyllisvík og hélt með 200 manna lið sem hann hafði safnað á Vestfjörðum út á Húnaflóann. Þar mætti hann enn stærri flota, 20 skipum Kolbeins unga með 450 mönnum, og hafði hvorugur vitað af hinum. Sló þegar í bardaga með liðunum og lauk orrustunni með því að Þórður varð að flýja vegna liðsmunar eftir frækilega framgöngu. Engin lausn fékk á deilunum við þennan bardaga, en Kolbeinn lést reyndar ári síðar af veikindum og gaf Þórði Kakala upp Norðausturland áður en hann lést.

Gott veður hefur verið á Ströndum í dag, blíðviðri og sólskin. Þórður og Kolbeinn hafa að líkindum verið óheppnir með veður á flóanum fyrir 762 árum, því þeir hefðu svo sannarlega sleppt bardaganum og farið í sólbað í staðinn ef veðrið hefði verið svipað þennan dag eins og árið 2006.