23/04/2024

70 ára afmæli Verkalýðsfélags Hrútfirðinga

Miðvikudagkvöldið 13. apríl hélt stjórn Verkalýðsfélags Hrútfirðinga upp á sjötíu ára afmæli félagsins og var það haldið í Grunnskólanum á Borðeyri. Ingibjörg Rósa Auðunsdóttir formaður félagsins bauð afmælisgesti velkomna og flutti stutt ávarp. Þar kom meðal annars fram að félagið ætlar í tilefni afmælisins að setja upp söguskilti á Boreyri, þar á að segja sögu Borðeyrar í hnitmiðuðu máli og myndum. Borðeyri hefur  skipað stóran sess í sögunni, þar hefur m.a. verið rekin verslun um ómuna tíð og var verslunarsvæðið lengi það stórt að það þjónaði mörgum sýslum bæði sunnan, vestan og norðan heiða. Einnig kom Borðeyri mikið við sögu vesturfara frá Íslandi.

Í ávarpinu kom einnig fram að Verkalýðsfélagið ættlar að stuðla að uppsetningu námsvers á Borðeyri, það er nettengt samskiptaform sem meðal annars auðveldar fjarnám á allan hátt. Vonast er til að fleiri félög á svæðinu hafi samvinnu þar um. 
Georg Jón Jónsson á Kjörseyri fór yfir sögu félagsins og þar kom meðal annarsfram að félagið var stofnað 16. febrúar 1934 og hét í fyrstu Verkalýðs og smábændafélag Hrútfirðinga, en því var síðan breytt í Verkalýðsfélag Hrútfirðinga á aðalfundi félagsins1943. Hefur félagssvæðið þess frá upphafi verið Bæjarhreppur og Staðarhreppur. Mikil breyting varð á kjörum verkamanna við stofnun félagsins, en þar áður var mönnum  stífuð  laun úr hnefa sem atvinnurekendur skömmtuðu sjálfir og höfðu þeir hiklaust samráð þar um.
Harkan var oft mikil á fyrstu árum félagsins í baráttunni um launakjör og önnur réttindi félagsmanna. Borðeyrardeilan svokallaða er frægt dæmi um harða baráttu verkamanna. Hún hófst á Borðeyri er verkalýðsfélagið þar stóð fyrir verkfalli þegar ekki samdist um kaup og kjör sem félagið setti upp fyrir verkamenn sína sem sjá áttu um uppskipun úr e/s Lagarfossi sem kom með vörur til Verslunarfélags Hrútfirðinga þann 7. maí 1934. Svo fór að deilan breiddist út  um Norðurland og urðu víða hatrammar deilur. Á Torfunesbryggju á Akureyri brutust út átök þegar verkamenn reyndu að standa á rétti sínum. Um þetta og fleira úr sögu félagsins má lesa í samantekt  Jóns Kristjánssonar Kjörseyri í bókinni Strandir 2.
 
Verkalýðsfélagið færði dagvistun Bæjarhrepps á Borðeyri einnig sérhönnuð leikskólahúsgögn til afnota í tilefni dagsins. Kristín Árnadóttir skólastjóri og Sigurlaug Árnadóttir umsjónarkona dagvistunar veittu gjöfunum viðtöku.

Þá voru Georgi Jóni Jónssyni og Sverri Björnssyni veittar sérstakar viðurkenningar fyrir að vera manna ötulastir við að halda á lofti sögu Borðeyrar og stuðla meðal annars að uppbyggingar Riishús á Borðeyri. Sigrúnu Waage og Heiðari Þóri Gunnarsyni voru einnig veitt sérstök hvatningarverðlaun fyrir áræði og framtakssemi við kaup á verslunarhúsunum á Boreyri og að hefja þar verslunarrekstur um síðustu áramót.
 
Barnakór Grunnskólans söng nokkur lög  og þær Greta Kristín Róbertsdóttir  og Bergþóra Fanney Einarsdóttir sungu bæði einsöng og samsöng. Undirleikari var Pálina Skúladóttir. Afmælishátíðin var vel sótt og að dagskrá lokinni bauð stjórn Verkalýðsfélagsins gestum til kaffiveislu í mötuneyti skólans.
 
Stjórn Verkalýðsfélagsins skipa nú:

  • Formaður                 Ingibjörg Rósa Auðunsdóttir Kollsá
  • Gjaldkeri:                 Kristín Guðbjör Jónsdóttir Kolbeinsá
  • Ritari:                       Róbert Júliusson Hvalshöfða
  • Forsvarsmaður LÍV: Lárus Jón Lárusson Borðeyri

Bergþóra Fanney Einarsdóttir

atburdir/2005/580-verkal4.jpg

Greta Kristín Róbertsdóttir

Barnakórinn

Stjórnin: Lárus Jón Lárusson,Ingibjörg R. Auðunsdóttir, Róbert Júlíusson og Kristín Guðbjörg Jónsdóttir

Ingibjörg Rósa Auðunsdóttir formaður

bottom

Sigurlaug Árnadóttir Kristín Árnadóttir og Ingibjörg

Georg Jón Jónsson

Afmælistertan – ljósmyndir: Sveinn Karlsson