27/04/2024

16 söngvarar skráðir í keppni

Næstkomandi föstudag, þann 30. september, hefst karókíkeppni ársins á Café Riis á Hólmavík en 16 aðilar hafa nú þegar skráð sig til keppni og vitað er um nokkra aðila sem hafa ekki enn staðfest þátttöku endanlega. Þetta verður tveggja kvölda keppni en seinna kvöldið, sem verður úrslitakvöldið, verður laugardaginn 15. október. Bjarni Ómar Haraldsson tónlistarkennari er umsjónarmaður og tæknimaður keppninnar en hægt verður að velja á milli 600 laga til að spreyta sig á. Það verður hægt að æfa sig fyrir keppnina og velja sér lög næstkomandi þriðjudagskvöld og fimmtudagskvöld á Café Riis frá kl. 19:00 – 22:00.

Karókíkeppnin verður með útsláttarfyrirkomulagi en allir keppendur syngja eitt lag fyrra kvöldið. Dómnefnd skipuð valinkunnu fólki ákveður síðan hverjir halda áfram og fá að taka þátt í úrslitakvöldinu. Það kvöld syngur hver keppandi tvö lög. Farandgripur verður í verðlaun ásamt óvæntum aukaverðlaunum.

Á fyrra keppniskvöldinu, 30. september, verður opið fyrir pizzur á Café Riis frá kl. 18:00 – 20:00 en á úrslitakvöldinu, 15. október, verður hægt að gera sér enn glaðari dag en þá verður í boði matarhlaðborð úr hinum rómaða eldhúsi veitingastaðarins.