29/04/2024

Vorið er komið – margt er að varast

Aðsend grein – Hafdís Sturlaugsdóttir
Nú er sumarið alveg að koma til okkar – sumardagurinn fyrsti er í dag fimmtudaginn 22. apríl. Sumrinu fylgir að náttúran vaknar af vetrardvala. Við erum þegar farin að sjá að farfuglarnir eru að týnast til landsins og gróðurinn er byrjaður að lifna við. Þannig eru ekki margir dagar í það að vetrarblómið blómstri og krækilyngið er komið með blómknappa.

En það eru ekki allar plöntur taldar æskilegar í náttúru Íslands. Ágengar plöntur eru skilgreindar þær plöntur sem geta breitt úr sér um stór svæði á tiltölulega skömmum tíma. Þær tegundir sem skilgreindar eru ágengar tegundir í náttúru Íslands eru alaskalúpína en tegundirnar bjarnarkló (tröllahvönn) og kerfill geta orðið ágengar. Menja von Schmalensee og Róbert Stefánsson tóku saman hefti um Ágengar tegundir í Stykkishólmi en þar er að finna ýmsan fróðleik um ágengar tegundir.

Einnig hefur Náttúrufræðistofnun Íslands gefið út skýrslu til umhverfisráðherra um Alaskalúpínu og skógarkerfil á Íslandi.

Tilgangur þessa greinarkorns er að vekja athygli á því að ekki er hættulaust að umgangast allar plöntur sem vaxa hér á landi. Flestir hafa heyrt um berserkjasveppinn fallega sem menn fóru flatt á að neyta enda er hann eitraður. Fleiri plöntur geta haft skaðleg áhrif t.d. hvönnin og þá sérstaklega Bjarnarkló (tröllahvönn, hestahvönn). Þessar plöntur líkjast venjulegri ætihvönn en er miklu stórvaxnari og getur fullvaxin planta náð 2-3 metrum að hæð. Á heimasíðu Magnúsar Jóhannssonar læknis og prófessors í lyfjafræði segir meðal annars um risahvannir;

Risahvannir eru eitraðar á þann hátt að berist safi úr blöðum eða stönglum á húð, veldur það ljósertiexemi. Í safa plöntunnar eru efni (einkum efnið psoralen) sem sogast fljótt inn í húðina og valda því að hún verður ofurviðkvæm fyrir útfjólubláu ljósi. Við minnstu birtu fær viðkomandi annars stigs bruna með vessandi blöðrum og sárum sem oft eru í rákum eða skellum þar sem plöntusafinn straukst eða draup á húðina en slíkt kallast ljósertiexem. Útbrotin koma oftast 5-18 klst. eftir sólbað og eru verst eftir 1½ til 2 sólarhringa. Húðin er viðkvæm í nokkrar vikur og eina ráðið er að verja viðkomandi húðsvæði fyrir ljósi en það getur verið erfitt t.d. í andliti. Þegar brunasárin hafa gróið skilja þau oftast eftir brúna bletti sem geta verið mörg ár að hverfa. Slysin verða þegar fólk er að klippa eða grisja plönturnar eða við leik hjá börnum, t.d. ef þau nota hola stöngla plöntunnar fyrir blásturspípur.

Frekari fróðleik um risahvannir má fá á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar.

Ég mæli því með, að þar sem þessar hvannir eru í görðum manna verði þær fjarlægðar hið fyrsta. Best er að fjarlægja þær, nú þegar þær fara af stað eftir veturinn.

Hafdís Sturlaugsdóttir, Náttúrustofu Vestfjarða

400-bjarnarklo-robert
Bjarnarkló við húsvegg í Stykkishólmi (mynd Róbert Stefánsson)