22/12/2024

Vestfirðingar eignast sinn sjávarútvegsráðherra

Aðsend grein: Sigurjón Þórðarson
Nýlega komu fram í Kastljósþætti Ríkissjónvarpsins tveir af forystumönnum Sjálfstæðisflokksins en það voru þeir Kristján Þór Júlíusson, fyrrum bæjarstjóri á Ísafirði og stjórnarmaður í Samherja, og Vestfirðingurinn Einar Kristinn Guðfinnsson, tilvonandi sjávarútvegsráðherra. Það var athyglisvert hvað það fór vel á með þeim en á ferðum mínum vestur á Ísafjörð hef ég komist að því að margir Vestfirðingar kunna Kristjáni Þór litlar þakkir fyrir afskipti sín af málefnum sjávarútvegsins á Ísafirði.

Svo var annað sem vakti sérstaka athygli mína en það var málflutningur tilvonandi sjávarútvegsráðherra. Hann var í hnotskurn eitthvað á þá leið að >vissulega hef ég, tilvonandi sjávarútvegsráðherra, mínar skoðanir en þegar á hólminn er komið, þá fer ég ekki eftir þeim<.

Alþjóð hefur fylgst með „baráttu“ Einars Kristins Guðfinnssonar fyrir breytingum á fiskveiðikerfinu innan flokksins sem er auðvitað miklu árangursríkara að mati þeirra fjölmörgu sem eru andstæðingar kvótakerfins og eru enn í Sjálfstæðisflokknum, heldur en að vera eins og hrópandinn í eyðimörkinni, eins og það er orðað.

Breytingarnar á kerfinu hefur hann iðulega boðað skömmu fyrir kosningar, s.s. þegar hann sagðist ekki ætla að styðja ríkisstjórn sem hefði óbreytt kvótakerfi. Alltaf hefur niðurstaða Einars Kristins verið sú sama eftir kosningar en þá hefur hann stutt ríkisstjórn sem hefur ekki einungis haldið vondu kerfi til streitu, heldur fært það til verri vegar fyrir byggðirnar vegna þess að flokkurinn hafi komist að niðurstöðu sem „sátt“ varð um.

Fleira má nefna, s.s. þegar hann lék tveim skjöldum varðandi það þegar Sjálfstæðisflokkurinn setti í fyrra smæstu handfærabáta landsins inn í kvótakerfið en fyrir kosningar hafði Einar Kristinn skrifað harða grein þar sem hann ætlaði Samfylkingunni þann ljóta leik sem hann lék sjálfur. Sama má segja um málflutning hans á stórfundinum á Ísafirði 13. september 2003 þar sem þingmenn gengu inn á fund undir borðanum „ORÐ SKULU STANDA“ en þar gaf málflutningur hans til kynna að hann styddi að sett yrði gólf í dagabátakerfið. Það var hins vegar svikið og trillurnar settar inn í kvótakerfið. Þess ber að geta að tilefni fundarins var að Vestfirðingar töldu að ríkisstjórnin hefði svikið loforð sín um línuívilnun og gólf í dagakerfið.

Nú, þegar allar líkur eru á því að Einar Kristinn verði sjávarútvegsráðherra og hann eigi að bera ábyrgð á fiskveiðistjórninni, virðist sem þær skoðanir sem hann hefur boðað á liðnum áratug um breytingar á fiskveiðistjórninni skipti heldur engu máli.