22/12/2024

Verslun Strandagaldurs fær Tax Free merki

Strandagaldur hefur gert samning við Iceland Refund sem varðar endurgreiðslu á virðisaukaskatti til erlendra ferðamanna sem versla í minjagripabúðum Galdrasýningar á Ströndum. Hér eftir geta því gestir sýningarinnar sem eru með fasta búsetu erlendis fengið hluta af virðisaukaskattinum endurgreiddan áður en þeir yfirgefa landið. Að sögn Sigurðar Atlasonar þá er þetta hluti af því að efla minjagripasölu Strandagaldurs enn frekar og að hans sögn þá styrkir samningurinn samkeppnisaðstöðu Strandagaldurs verulega þar sem önnur minjagripasala á Hólmavík þarf ekki að gera skil á virðisaukaskatti og getur því sparað álagningu verulega.

Lágmarksverslun til að njóta þessara fríðinda er 4000 krónur og fær viðkomandi í hendur ávísun sem er síðan framvísað til endurgreiðslu í Leifsstöð eða öðrum útborgunarstöðvum Iceland Refund á Íslandi. Ferðamaðurinn fær ca. 15% endurgreitt eða um 600 krónur ef verslað er fyrir 4000 krónur. Mismunurinn er þóknun sem skiptist á milli verslunar, bankastofnana og endurgreiðsluaðilans.

Heimasíða Iceland Refund