22/12/2024

Verklokum við Strandaveg frestað?

VegagerðEins og kunnugt er hafa tilboð í vegagerð á 4 km kafla á Strandavegi (643), frá Geirmundarstaðaveg að Hálsgötu verið opnuð og voru Skagfiskir verktakar ehf lægstbjóðendur.  Í auglýsingum voru verklok kynnt 1. október 2008. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni sendi stofnunin út bréf til bjóðenda fyrir opnun tilboða, þess efnis að mögulegt væri að fresta verklokum fram á mitt ár 2009. Að sögn Vegagerðar er ástæðan sú að mikið er um að verk á svæðinu eigi að klárast í haust. Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps mun hafa mótmælt þessari seinkun harðlega, enda hlýtur þessi aðgerð að teljast afar sérkennileg. Rétt er að minna á að vegagerð milli Hólmavíkur og Drangsnes hefur verið skilgreint sem sérstakt flýtiverkefni og mótvægisaðgerð samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar.

Ekki er ljóst hvenær 2,5 km kaflinn sem enn stendur eftir á Strandavegi að Djúpvegi verður boðinn út. Verið er að skoða með nýja brú á Staðará og er ekki búið að ganga frá því máli. Heimamönnum þykir mörgum merkilegt í meira lagi að vegagerðinni á þessu flýtiverkefni skuli vera skipt í tvö verkefni og telja ólíklegt að það sé hagkvæmt gagnvart útboðunum.

Áratugur er síðan allir nálægir þéttbýlisstaðir á Vestfjörðum voru tengdir sín á milli með bundnu slitlagi, nema Hólmavík og Drangsnes á Ströndum. Þetta var á sínum tíma sérstakt áhersluverkefni hjá Fjórðungssambandi Vestfjarða og skilaði sú barátta árangri alls staðar nema á Ströndum. Milli þorpanna sem bæði standa við Steingrímsfjörð eru rúmlega 30 km, vegurinn liggur með sjó alla leið og engin sérstök vandkvæði eru við vegagerð á svæðinu.