strandir.saudfjarsetur.is hefur vart undan að flytja fréttir af Eyrarrósinni í dag, en rétt í þessu var verið að tilkynna um hvaða verkefni eru tilnefnd til Eyrarrósarinnar 2007. Strandagaldur er eitt þeirra þriggja verkefna sem tilnefnt er úr hópi fjölmargra umsækjenda. Verðlaunin veitir Dorrit Moussaieff forsetafrú sem jafnframt er verndari Eyrarrósarinnar næstkomandi miðvikudag við athöfn á Bessastöðum. Þau verkefni sem tilnefnd eru til Eyrarrósarinnar 2007 eru:
Safnasafnið í Eyjafirði
Sérstaða Safnasafnsins í íslensku safna og sýningarhaldi er óumdeild, en safnið er hið eina sinnar tegundar á Íslandi. Með metnaðarfullu starfi árum saman hefur tekist að skapa einstakan ramma utan um alþýðulist, nýrri list og handverk af ýmsu tagi. Sýningar safnsins hafa borið faglegum metnaði gott vitni og sérstök verkefni safnsins og sýningar stefna saman ýmsum listastefnum og tvinna saman starf hámenntaðra listamanna og áhugafólks. Frumkvæði einstaklinga í þessu einstaka safni er aðdáunarverð og einstök.
Skálholtshátíð í Skálholti
Ein glæsilegasta tónlistarhátíð landsins um langt árabil eru Sumartónleikar í Skálholtskirkju sem allt frá árinu 1975 hafa flutt mikinn fjölda innlendra og erlendra tónverka með fremstu flytjendum landsins. Erlendum þátttakendum og gestum Sumartónleikanna fjölgar ár frá ári og fjölbreytni og umfang að sama skapi. Fjöldi nýrra verka hefur verið frumflutt á hátíðinni og einnig eldri verk, áður óþekkt hér á landi. Hátíðin nýtur virðingar sem elsta og jafnframt stærsta sumartónlistahátíð landsins og sérstaklega er aðdáunarvert að aðgangur að tónleikum í Skálholtskirkju er ókeypis.
Strandagaldur á Ströndum
Strandagaldur stendur að fjölbreyttum verkefnum og sýningum á sviði þjóðfræði og sýningarhalds og hefur frá því að það var opnað vakið verðskuldaða athygli innanlands og utan. Sérstaða svæðisins er nýtt til að draga fram íslenska þjóðtrú og sögu og óhætt er að fullyrða að verkefnið á sér enga hliðstæðu á heimsvísu. Metnaður og fagþekking eru höfð að leiðarljósi. Starfsemin hefur jákvæð áhrif á byggðaþróun og uppbyggingu atvinnulífs héraðsins sem aftur styrkir stoðir þess og dregur athygli ferðamanna að því. Rík þátttaka heimafólks í starfinu er til fyrirmyndar.
Auglýst var eftir umsóknum í fjölmiðlum og voru umsækjendur m.a. ýmis tímabundin verkefni, menningarhátíðir, stofnanir, söfn.