22/12/2024

Vel heppnað námskeið

Dagana 11.-13. maí var námskeið um sjálfbæra og aðgengilega náttúruskoðun, haldið í Húnaþingi vestra og á Ströndum. Fyrirlesarar námskeiðsins komu víða að, er þar helst að nefna James MacLetchie frá Skotlandi, Carol Patterson fá Kanada og Hans Gelter frá Svíþjóð, en öll eru þau sérfræðingar á sviði náttúrutengdrar ferðaþjónustu. Innlendir fyrirlesarar voru Kjartan Bollason frá Hólaskóla, Guðríður Þorvarðardóttir frá Umhverfisstofnun og Þórunn Edda Bjarnadóttir, sem fjallaði um úttekt sína á aðgengi fatlaðra að ferðamannastöðum.

Þátttakendur á námskeiðinu voru frá 6 þjóðlöndum auk Íslands og voru erlendu námskeiðsgestirnir á vegum NORCE strandmenningarverkefnisins. Í Húnaþingi vestra var fyrirhuguð starfsemi Selasetur Íslands kynnt, auk þess sem farið var í sela- og fuglaskoðunarferð um Vatnsnes. Þar var  kynnt fyrirhuguð uppbygging selaskoðunarstaða og notið kaffiveitinga í Hamarsbúð. Ferðin endaði svo á kvöldverði og fuglaskoðun á Gauksmýri. Á leiðinni á Strandir var Byggðasafnið á Reykjum skoðað.

Á Ströndum var Galdrasafnið á Hólmavík heimsótt, hangikjöt snætt á Café Riis, gist og farið í sund á Laugarhóli og siglt með Sundhana út í Grímsey. Námskeiðið tókst í alla staði vel og voru bæði þátttakendur og skipuleggjendur hæst ánægðir. Skipuleggjendur vilja þakka námskeiðsgestum og fyrirlesurum kærlega fyrir komuna og vonast til að sjá þá fljótlega aftur í Húnaþingi og á Ströndum.

Ljósm. og frétt frá Selasetri Íslands – www.selasetur.is.