22/12/2024

Vegagerð í Hrútafirði

Samkvæmt yfirliti yfir framkvæmdir sem birtist í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar nú nýverið stendur til að breyta hringveginum fyrir botni Hrútafjarðar á næstu árum. Þegar nánar var grennslast fyrir um þetta verkefni hjá Vegagerðinni kom í ljós að ætlunin er að breyta veginum þannig að farið verði þvert yfir fjarðarbotninn, nær sjó en vegurinn liggur nú, líklega í grennd við Fjarðarhorn og neðan við Staðarskála. Vegstæði er þó ekki ákveðið, en framkvæmdin er fyrirhuguð á árunum 2006-7. Með þessu móti styttist leiðin milli Stranda og staða á Norðurland nokkuð og á hringveginum losna menn við leiðinlega einbreiða brú yfir Síká og varasamar beygjur og gatnamót við Hrútafjarðará. Þá lengist jafnframt sá hluti hringvegarins sem liggur um Strandir, ferðalöngum til ánægju og yndisauka.