22/12/2024

Unglingalandsmót 2009 undirbúið á Grundarfirði

Á Grundarfirði er nú unnið af kappi að undirbúningi fyrir Unglingalandsmótið 2009, en eins og kunnugt er verður landsmótið haldið á Hólmavík 2010. Á fréttavefnum www.skessuhorn.is kemur fram að famkvæmdum við mannvirkjagerð miðar vel og eru vel á áætlun, að sögn Jóns Péturs Péturssonar sem er starfsmaður framkvæmdanefndar Grundafjarðabæjar vegna landsmótsins. Þessa dagana er einmitt verið að ganga frá útboðsgögnum vegna dýrasta hluta framkvæmdanna, gerð frjálsíþróttavallarins. Áætlanir gera ráð fyrir að gengið verið frá undirlagi fyrir völlinn í haust og tartan-efni verði síðan lagt á brautir og keppnissvæði við völlinn næsta vor.

Í sumar hefur verið unnið að mótun fjögurra knattspyrnuvalla, fyrir keppina á landsmótinu en þar er keppt í sjö manna liðum. Verið er að leggja þökur á þessa velli sem eru steinsnar frá aðalleikvanginum. Vellirnir verða þó einungis nýttir fyrir knattspyrnu á landsmótinu þar sem þeir verða skrúðgarðs- og tjaldsvæði í framtíðarskipulagi.

Að sögn Jóns Péturs eru þrjú stór verkefni sem unnið er að þetta árið; knattspyrnuvellirnir, frjálsíþróttavöllur og mótorkrossbraut. Svæði fyrir mótorkrossbrautina var úthlutað fyrir skömmu við Hrafnkelsstaðabotn í  Kolgrafarfirði. Jón Pétur segir að kappkostað sé að landsmótið, sem fram fer um verslunarmannahelgina næsta sumar, verði mikil fjölskylduhátíð og íþróttakeppnin fari að mestu fram á og við íþróttaleikvanginn. Það sé aðeins keppni í golfi og mótorkrossi sem verði spölkorn frá aðalmótssvæðinu. Reiðvöllurinn við hesthúsahverfið, þar sem keppni í hestaíþróttum fer fram, sé stutt frá íþróttasvæðinu.

Það er Grundarfjarðarbær sem stendur að unglingalandsmótinu í samvinnu við HSH. Sérstök landsmótsnefnd sér um dagskrá og framkvæmd þess, þar sem sæti eiga fulltrúar frá HSH og UMFÍ.