26/12/2024

Umræður í Atvinnumálanefnd Strandabyggðar

Nokkrar umræður urðu um atvinnumál í Strandabyggð á fundi Atvinnumálanefndar sveitarfélagsins á dögunum. M.a. var rætt um stöðu sjávarútvegsins og smábátaútgerðarinnar og í tengslum við það var rætt um hugmyndavinnu Vestfjarðarnefndar um kræklingarækt. Þá taldi nefndin að athuga mætti meiri vinnslu með grásleppu og hugmyndir um kítinvinnslu eru ennþá uppi á borðinu. Hugmyndir eru um að aukning verði á afköstum rækjuverksmiðjunnar Hólmadrangs á næstu árum og velt var upp þeirri spurningu hvort ekki væri hægt að fullvinna fisk- og rækjuafurðir enn frekar á staðnum.

Staða landbúnaðar hefur verið sú að býlum hefur verið að fækka en á móti hafa nokkrir bændur verið að stækka við sig. Nokkrir bændur hafa verið með sérhæfða framleiðslu sem er afrakstur Vaxtarsprotaverkefnis sem fór af stað á síðastliðnu ári s.s. vinnsla með ærkjöt, berjasulta og ræktun plöntusprota. Verkefnið Beint frá býli er eitthvað sem verið er að vinna að á nokkrum stöðum.

Í þjónustugreinum mætti horfa til aukinni þjónustu við ferðamenn, flutningabílamiðstöð þar sem er aðstaða fyrir bílstjóra t.d. við flugvöllinn og fl.