22/12/2024

Tillaga að góðum degi

Það er við hæfi á jafn fallegum degi og er í dag að koma með tillögur um nýtingu hans til þeirra sem hafa ekki enn ákveðið hvað skuli taka sér fyrir hendur. Til dæmis er upplagt að aka í Bjarnarfjörð og taka þátt í að draga þar dilka í Skarðsrétt eða að fylgjast með bændunum í sínum önnum, en réttirnar hefjast um kl. 13:00. Eftir þær er upplagt að nota tækifærið og fara í sund á Laugarhóli eða fá sér gómsætan ís sem fæst í þjónustuhúsi Kotbýlis kuklarans á Klúku og jafnvel að skoða sýninguna sem er opin í dag frá kl. 15:00-18:00. Þeir sem hafa komið sér vel fyrir og nenna alls ekki heim strax geta síðan farið á réttarball á Laugarhóli og spriklað í dansi fram á rauðanótt.