23/12/2024

Þjóðminjasafn safnar minningum úr héraðsskólum

Þjóðminjasafn Íslands hefur sent út spurningaskrá þar sem óskað er eftir að fólk sendi safninu minningar úr héraðsskólum og öðrum heimavistarskólum til sveita á unglingastigi. Verið að leita eftir frásögnum og minningum fyrrverandi nemenda. Spurningaskráin er hluti af þjóðháttasöfnun Þjóðminjasafns Íslands sem staðið hefur óslitið síðan 1960. Spurt er um hefðir, félagslíf, samskipti við aðra nemendur og starfsfólk skólans, kennslu, nám, frístundir, tengsl við fjölskyldu og heimili o.fl.

Hægt er að finna spurningaskrána á þessum tengli og svara henni þar rafrænt eða skrifa svarið í ritvinnsluskjal og senda safninu. Afrakstur söfnunarinnar verður gerður öllum aðgengilegur í gagnasafninu Sarpi á vefslóðinni sarpur.is, nema að annað sé tekið fram.

Fjölmargir Strandamenn voru í Reykjaskóla í Hrútafirði og reyndar mörgum öðrum heimavistarskólum víða um land. Eru þeir hvattir til að senda Þjóðminjasafninu pistil. Meðfylgjandi mynd er frá Reykjaskóla á stríðsárunum og er hún fengin af síðu Hollvina Reykjaskóla á Facebook.